Atmos Cloud team

Atmos Cloud – Öflugt skýjaþjónustufyrirtæki hefur starfsemi

Atmos Cloud er nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun, innleiðingu og rekstri á Microsoft skýjalausnum. Starfsmenn Atmos Cloud hafa víðtæka reynslu í rekstri skýjalausna (cloud-managed services), en einnig í almennri rekstrarþjónustu, sjálfvirknivæðingu og verkefnastjórnun og er samanlögð reynsla félagsins yfir 60 ár í upplýsingatækni, eins og kemur fram í tilkynningu frá Atmos Cloud.

Framkvæmdastjóri Atmos Cloud er Viðar Þorláksson, en Viðar hefur síðustu misseri starfað sem sjálfstæður stjórnendaráðgjafi og sjórnandi hjá Arion banka. „Við leggjum mikið upp úr því að þekkja og skilja viðskiptavini okkar, við trúum því að það sé forsenda þess að geta veitt framúrskarandi og áreiðanlega þjónustu til lengri tíma. Tæknilegar og viðskiptalegar ákvarðanir byggjast því á forsendum og þörfum viðskiptavina okkar og þannig viljum við innleiða og reka skýjavegferð hvers og eins fyrirtækis,” segir Viðar.

Breyttar aðstæður ýta okkur í nýtt og betra vinnuumhverfi til framtiðar

COVID-19 hefur breytt umhverfi fyrirtækja gríðarlega og hefur ýtt mörgum fyrirtækjum í að hugsa vinnuumhverfi sitt upp á nýtt. Margir vinna nú oftar heiman frá sér eða í dreifðara vinnuumhverfi. Microsoft Teams er eitt vinsælasta vinnuumhverfi fyrirtækja í dag en það hefur hjálpað fyrirtækjum gríðarlega við þessar stökkbreyttu aðstæður sem að mörgu leyti eru komnar til að vera. Með Microsoft Teams sameinast fyrirtækið á einum stað, öll samskipti, myndfundir og önnur gögn eru þannig aðgengileg hvenær og hvar sem er. Microsoft Teams hefur vaxið gríðarlega í vinsældum síðustu misseri og er nú orðið mest vaxandi forrit í sögu Microsoft með yfir 75 milljón notendur á dag. Atmos Cloud eru sérfræðingar á þessu sviði og bjóða upp á frí fjarnámskeið í Microsoft Teams til að hjálpa fyrirtækjum við að taka fyrsta skrefið og aðlagast nýju vinnuumhverfi.
Skýjalausnir og skalanleiki þeirra standa nú mun framar en gömlu aðferðirnar til að tengjast vinnuumhverfinu og eru að auku oftar en ekki bæði hagstæðari og öruggari.

Öryggi er kúltúr

Atmos Cloud leggur mikla áherslu á öryggi og segja starfsmenn að mikilvægt sé að allar tölvur og búnaður sem hafa aðgang að vinnuneti standist allar öryggiskröfur, svo sem stýrikerfis- og hugbúnaðarviðbætur. Öryggismál fyrirtækja er kúltúr og er mikilvægt að allir innan fyrirtækisins séu hluti af þeirri vegferð. Það tekur tugi ára að byggja upp gott orðspor en bara örfáar mínútur að brjóta það niður ef netinnbrot á sér stað.

Því er oft fleygt fram að “gögn séu hin nýja olía” og að verðmæti fyrirtækja felist að miklu leyti í gögnum sem það býr yfir. Atmos Cloud þykir það vera sjálfsagður hlutur fyrir fyrirtæki að vera með aðgengi að öllum þeirra gögnum hvar og hvenær sem er. Gögn sem einu sinni var eingöngu hægt að nálgast á skrifstofunni eru nú aðgengileg í gegnum hin ýmsu snjalltæki, svo sem spjaldtölvur og farsíma. Því má segja að við séum ávallt með „skrifstofuna í vasanum“ og það krefst þess að fyrirtæki þurfa að huga vel að öryggi fyrir gögnin sín. Með Microsoft skýjalausnum er vinnuumhverfið þitt varið gegn skaðlegum ógnum og gagnaleka ef vinnubrögð við uppsetningu eru eftir forskiftum Microsoft.

Meiri sjálfvirkni

Síðustu ár hefur stafræn umbreyting og sjálfvirkni ekki eingöngu orðið vinsælli heldur líka bráð nauðsynleg fyrir fyrirtæki svo þau missi ekki af lestinni og gleymist. Atmos Cloud eru sérfræðingar í sjálfvirkni með skýjalausnum og taka undir að þarna sé mikil eftirspurn og segja möguleikana nánast endalausa, allt frá sjáfvirkum ferlum sem leiðir af sér sjálfsafgreiðslu viðskiptavina yfir í sjálfvirka ákvarðatöku við öryggisógnir sem dæmi.

Hverjir eru Atmos Cloud?

Grétar Gíslason, tæknistjóri Atmos Cloud og einn af reyndari Microsoft sérfræðingum landsins. Grétar hefur 14 ára reynslu í upplýsingatækni og hefur á þeim tíma hlaðið á sig reynslu og miklum fjölda Microsoft gráða. Grétar hefur lengst af unnið sem Microsoft sérfræðingur hjá Anza, Símanum og Sensa.

Ragnar Már Vilhjálmsson er sölustjóri Atmos Cloud og hefur starfað í faginu í 23 ár, lengst af sem tæknilegur sérfræðingur er viðkemur Microsoft lausnum og leyfismálum. Síðustu fimm ár hefur Ragnar starfað hjá Sensa sem viðskiptastjóri og ráðgjafi, en þar áður hjá Basis, Íslandsbanka og Álit/Anza. Ragnar er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík.

Viðar Þorláksson, framkvæmdastjóri Atmos Cloud byrjaði í tölvugeiranum árið 1996. Seinna hefur Viðar unnið að fjölda verkefna, meðal annars fyrir Icelandair, Eimskip, og Landsbankann. Viðar stofnaði og rak tölvuþjónustufyrirtæki í London á Englandi árið 2004 sem þjónustaði mörg stærstu fjármálafyrirtæki Íslands í Bretlandi ásamt öðrum fyrirtækjum. Síðustu ár hefur Viðar stýrt þróun Arion banka appsins og netbanka bankans ásamt því að starfa sem sjálfstæður ráðgjafi.
Viðar er með BSc í fjármálaverkfræði, BSc í tölvunarfræði og MBA frá Háskólanum í Reykjavík.

Gartner Inc, gerir ráð fyrir að markaður fyrir skýjalausnir muni aukast um 17% á árinu, frá $227,8 milljörðum árið 2019 í $266,4 milljarða árið 2020. Árið 2022 gerir Gartner ráð fyrir að talan verði um $354,6 milljarðar eða um 55% aukning.